Göngugarpar geta valið úr fjölda dagsferða frá Hólum en þaðan liggja bæði merktar leiðir og ómerktar, stuttar sem langar.

Söguslóðin
Fyrir styttri ferðir er tilvalið byrja á Söguslóðinni. Hún er merkt gönguleið umhverfis Hóla sem hentar flestum, ungum sem öldnum. Til að fá sem mest út úr þeirri göngu er gott að verða sér úti um leiðabæklinginn sem heitir Hólar í Hjaltadal – Söguslóð.

Gönguleiðin er merkt með stikum sem eru númeraðar frá 1 og upp í 14. Í bæklingnum er saga þessara 14 staða rakin í stuttu máli, ásamt ýmsu öðru áhugaverðu úr sögu Hóla.

Hólaskógur
Kjósi fólk að fara í gönguferðir um Hólaskóg og njóta náttúrunnar, er hægt að ganga víða, því nokkuð er af merktum göngustígum víðs vegar um skóginn, en einnig er hægt að ganga eftir slóða í miðjum skóginum sem tilkominn er vegna nauðsynlegar umferðar vélknúinna tækja, vegna vinnu í skóginum.

Hólaskógur er tilvalinn til náttúruskoðunar og náttúrutúlkunar. Þar má sjá fjölmargar tegundir plantna og margar trjátegundir, jafnvel er þar að finna mörg kvæni af sömu tegund trjáa ef vel er að gáð. Fugla- og smádýralíf er þar einnig mikið. Syðst og efst í skóginum er sá hluti hans sem í gegnum tíðina hefur verið kallaður Raftahlíð, en það nafn er tilkomið vegna þess að Hólabyrða bar áður nafnið Raftahlíð.

Gvendarskál
Upp í Gvendarskál er um 1,5 – 3 klst gangur frá Hólum og gönguleiðin í meðallagi erfið. Þar er frábært útsýni og gaman að koma. Gestir eiga þess kost að ganga sömu leið og talið er að Guðmundur góði Arason, hafi gengið þegar hann fór þangað upp til bæna. Enn sést móta fyrir fornu garðlagi í urðinni niður frá skálabrúninni þar sem talið er að hafi verið gönguleið Guðmundar þegar snjóþungt var.

Uppi í skálinni er bjarg eitt sem heitir Gvendaraltari og er talið að þar hafi Guðmundur góði farið með bænir sínar. Þessar minjar eru nú friðlýstar. Leiðin upp í Gvendarskál er stikuð, þannig að ekki á að vera hætta á að fólk fari ranga leið.

Kjósi fólk að fara eftir þeirri leið sem búið er að merkja er æskilegt að hefja förina heima við skólahúsið á Hólum en á suðurenda byggingarinnar, skammt frá innganginum þar sem ferðaþjónustan er með afgreiðslu, er að finna kort sem sýnir þær gönguleiðir sem eru stikaðar í nágrenni Hóla og einnig nokkrar til viðbótar sem ekki eru stikaðar.

Vilji fólk halda í lengri gönguferðir er tilvalið að fara upp úr Gvendarskál, fram Grjótárdal, sem liggur á bak við Hólabyrðu og þaðan upp á topp fjallsins. Þaðan er stórkostlegt útsýni enda er Hólabyrðan 1244 m há og gnæfir yfir önnur fjöll í kring. Þessi leið er merkt inn á áðurnefnt gönguleiðakort sem gert var fyrir Ferðaþjónustuna á Hólum. Áætlað er að göngutími sé 4 – 6 klukkustundir en gangan er í meðallagi erfið.

Þriðja gönguleiðin í Hólabyrðu sem merkt er inn á fyrrnefnt kort, er leiðin upp í námu þá sem byggingarefni Hólakirkju var sótt í, en hún var byggð á árunum 1757 – 1763. Þangað var einnig sótt efni er kirkjan var endurbætt á árunum 1989 – 1990. Þessi ganga er tiltölulega auðveld og tekur um 1,5 – 2 klst.

Af öðrum gönguleiðum sem eru stikaðar má t.d. nefna leið sem er til að byrja með sú sama og ef farið er upp Gvendarskál, en beygir til norðurs fyrir ofan skóginn í Raftahlíð og liggur meðfram girðingu, í áttina út að Víðinesá, en yfir hana hefur verið lögð göngubrú. Frá göngubrúnni er svo þægilegt að ganga upp á fjallið Elliða en þaðan er gott útsýni m.a. yfir Kolbeinsdal. Þessi leið er stikuð yfir Víðinesá en seinni hlutinn er aðeins merktur á kort það sem áður er getið.

Kjósi menn að fara lengri leið er hægt að fara fram Víðinesdal, þegar komið er yfir fyrrnefnda göngubrú á Víðinesá. Ef gengið er fram í botn á Víðinesdal, er komið á svokallaðan Almenningsháls sem liggur á milli Elliða og Ármannsfells. Sé farið yfir hann, er komið niður í Kolbeinsdal, en þægilegt er að ganga niður hann, fram hjá gangnamanna- og sumarhúsinu á Fjalli, síðan yfir Hálsgróf og niður að Víðinesi og þaðan heim til Hóla. Hægt er að komast á bíl yfir í Fjall í Kolbeinsdal og þannig að stytta leiðina ef menn hafa einhvern til að keyra sér. Á þessari leið er allmikið um nafnkennd kennileiti, bæði úr fyrritíma heimildum og úr þjóðsögum. Þessi leið er mjög greið og auðfarin, því ekki verða neinar alvarlegar torfærur á leið manna, þó geta menn lent í dálítilli mýri fram á Almenningshálsi. Þessi leið er hvorki stikuð né merkt inn á göngukort en auðrötuð í björtu, hafi menn fengið leiðarlýsingu áður en lagt er af stað.

Ein af þeim leiðum, í nágrenni Hóla, sem er merkt inn á gönguleiðakort það sem áður var getið, er leiðin frá Hólum, fram hjá fiskeldisstöðinni Hólalaxi, fram í Hagakot og þaðan upp á Þríhyrninga, sem er fjallið fyrir ofan Hagakot. Á Hagakoti var búið til ársins 1882 en sagt er að þar hafi flökkumaður einn, sem kallaður var Siggi, látið lífið í strompnum á bænum er hann reyndi að komast inn þrátt fyrir að húsmóðirin sem var ein heima hefði lokað bænum þar sem hún óskaði ekki komu hans. Fékk hann eftir það viðurnefnið Siggi strompur og segir sagan að hann gangi enn aftur á Hagakoti. Á Hagakoti voru lengi beitarhús frá Hólum, allt til ársins 1980.

Á leiðinni fram í Hagakot er m.a. gengið fram hjá landnámsjörðinni Hofi en þar byggði Hjalti Þórðarson bæ sinn er hann nam Hjaltadal. Á Hofi er nú einnig unnið að fornleifauppgreftri.

Allar þessar leiðir sem hér hafa verið taldar upp eru mjög ríkar af sögum og því má með sanni segja að þeir sem kjósa að njóta gönguferða meðan þeir dvelja á Hólum geti auðveldlega gengið götur sögunnar, hvort sem fólk kýs að fara í lengri eða skemmri ferðir.